Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 397 . mál.


691. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 57/1988, um framhaldsskóla, sbr. lög nr. 107/1988 og nr. 72/1989.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    Á eftir 39. gr. laganna kemur ný grein er orðast svo:
     Menntamálaráðherra er heimilt að efna til tilraunastarfs í starfsnámi og víkja þá frá ákvæðum þessara laga ef nauðsyn krefur. Slíkt tilraunastarf skal að jafnaði ekki skilgreint til lengri tíma en tveggja ára í senn og skal hafa fullt samráð við fulltrúa atvinnurekenda og launþega í viðkomandi starfsgrein um skipulagningu tilraunarinnar.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Að undanförnu hafa komið fram nýjar hugmyndir um uppbyggingu og skipan náms í framhaldsskólum, einkum verklegs náms, og hafa fulltrúar nokkurra iðngreina rætt þann möguleika við ráðuneytið að gerðar verði breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Þessar hugmyndir fela í sér aukna ábyrgð atvinnulífs, bæði faglega og fjárhagslega, og beina þátttöku aðila vinnumarkaðarins í framkvæmd skólastarfs og eftirlit með því.
     Þessar hugmyndir eru að mörgu leyti áhugaverðar en ýmis atriði, sem tengjast þeim, eru ekki í samræmi við gildandi lög um framhaldsskóla og því ekki unnt að koma þeim til framkvæmda eða prófa þær. Þar sem hér er um að ræða umtalsverðar breytingar frá núverandi fyrirkomulagi er ekki æskilegt að láta þær koma til framkvæmda í skólakerfinu öllu án þess að þær hafi verið reyndar í framkvæmd í einum eða fleiri skólum. Þess vegna þykir rétt að menntamálaráðherra verði með lögum veitt heimild til að efna til tilraunastarfs í framhaldsskólum á sviði verknáms þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
     Verknám er þess eðlis að mikilvægt er að nýjar hugmyndir um stjórnun og skipan náms nái skjótt fram að ganga. Tæknibreytingar eru hraðar og eiga upptök sín úti í atvinnulífinu og þess vegna þarf að búa þannig um hnútana í skipulagi iðnnámsins að áhrif atvinnulífsins séu tryggð og menn þar hafi aðstöðu til að fylgja eftir breytingum í tækni og viðskiptum með skilvirkum hætti í menntakerfinu og beri ábyrgð í samræmi við áhrif.
     Núverandi stjórnunarform framhaldsskóla, einkum að því er varðar sérnám á afmörkuðum brautum, hefur nokkra vankanta sem nauðsynlegt er að sníða af. Nokkuð hefur borið á samskiptaörðugleikum sem trúlega mætti lagfæra með því að stytta boðleiðir og flytja stjórnunarvaldið í auknum mæli til atvinnulífsins. Hver iðngrein þarf að búa við sem mest sjálfstæði hvað þetta varðar. Því þarf að koma á raunverulegum og beinum tengslum milli skóla og atvinnulífs.
     Vegna þess að nauðsynlegt er að lagfæra nú þegar skipan iðnnáms í ýmsum greinum er mikilvægt að heimild fáist í lögum til að koma á tilraunastarfi á afmörkuðum sviðum og gæti niðurstaða þeirra tilrauna síðan nýst við endurskoðun laga og reglugerða um framhaldsskóla.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 57/1988,


um framhaldsskóla, sbr. lög nr. 107/1988 og nr. 72/1989.


    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra verði heimilt að víkja frá ákvæðum framhaldsskólalaga til að efna til tilraunastarfs í starfsnámi. Heimild menntamálaráðherra er ekki nánar afmörkuð að öðru leyti en því að tilraunastarf skuli að jafnaði ekki skipuleggja til lengri tíma en tveggja ára í senn.
     Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að nýjar hugmyndir um uppbyggingu og skipan náms í framhaldsskólum fela í sér aukna ábyrgð atvinnulífs, bæði faglega og fjárhagslega. Ef þetta verður reyndin gæti það jafnvel haft í för með sér sparnað þó líklegra verði að teljast að hugmyndir sem þessar um að styrkja og byggja upp verknám innan framhaldsskólanna kalli á aukið fjármagn. Þátttaka atvinnulífs ætti þó að draga úr þeim viðbótarkostnaði.
     Hversu mikið útgjöld aukast veltur m.a. á því að hve miklu leyti atvinnurekendur taka þátt í fjármögnun, í hve mörgum skólum slíkt tilraunastarf verður heimilað og til hve langs tíma.